148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

Frumvarpið er fyrst og fremst liður í innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB.

Ég vil geta þess strax í upphafi að frumvarp þetta, eða innihald þess, er nú lagt fram í annað sinn, en frumvarp sama efnis var lagt fram á 146. löggjafarþingi og gekk þá til velferðarnefndar eftir 1. umr. en hlaut ekki afgreiðslu.

Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að settar verði heildstæðar reglur um heimildir til innflutnings, sölu og markaðssetningar á rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur, auk ákvæða um eftirlit með slíku. Hins vegar eru lögð til ákvæði um heimildir til notkunar rafrettna.

Frumvarpið felur í sér að nú verður í raun í fyrsta sinn veitt almenn heimild fyrir innflutningi, dreifingu og sölu á rafrettum og áfyllingum fyrir þær hér á landi, hvort sem þær innihalda nikótín eða ekki. Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að fólk átti sig á þessu, því samkvæmt gildandi lyfjalögum telst vökvi sem inniheldur nikótín til lyfja og því er óheimilt í raun að selja rafrettur með fyllingum sem innihalda nikótín nema fyrir liggi markaðsleyfi frá Lyfjastofnun.

Stundum hefur mátt skilja umræðuna um rafrettur hér á landi á þá lund að setning löggjafar þar að lútandi sé fyrst og fremst til þess fallin að leggja stein í götu þeirra sem vilja hætta hefðbundnum tóbaksreykingum og nýta sér rafrettur til þess. Þetta er fjarri lagi. Sú löggjöf sem hér er lögð til, með frumvarpi því sem hér er til umræðu, skapar umhverfi sem mun í fyrsta sinn stuðla að löglegum innflutningi þessarar vöru. Því fylgir bætt neytendavernd þar sem fólk getur fremur en áður treyst merkingum og innihaldslýsingum. Síðast en ekki síst verða settar nauðsynlegar skorður við sölu og markaðssetningu á þessum varningi þegar börn eiga í hlut.

Í stuttu máli er lagt til að sambærilegar reglur gildi um notkun rafrettna og um notkun reyktóbaks. Sama máli gegnir um markaðssetningu og aldursmörk. Óheimilt verður að selja rafrettur og áfyllingar í þær börnum yngri en 18 ára. Þeir sem selja þennan varning þurfa sömuleiðis að hafa háð 18 ára aldri.

Í frumvarpinu er kveðið á um merkingar og markaðssetningu með áherslu á að ekki megi höfða sérstaklega til barna og ungmenna. Lagt er til að kveðið verði á um öryggi rafrettna til að lágmarka hættu á slysum við notkun þeirra og tryggja að rafrettur og áfyllingar séu barnheldar. Ákvæði um hámarksstyrkleika, stærð áfyllinga, innihaldsefni í áfyllingar sem og hámarksstærð tanka einnota rafrettna og hylkja eru lögð til þar sem sömu takmarkanir eru settar á styrkleika og stærð og koma fram í áðurnefndri Evróputilskipun.

Óheimilt verður að selja rafrettur eða áfyllingar í skólum og öðrum stöðum sem ætlaðir eru til félags-, íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna og á heilbrigðisstofnunum og öðrum stöðum þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt.

Um auglýsingar og um sýnileika rafrettna og áfyllinga á sölustöðum gilda sömu reglur og um tóbak í frumvarpinu, þ.e. að óheimilt verður að auglýsa rafrettur og áfyllingar eða hafa sýnilegar á sölustöðum að undanskildum sérvöruverslunum þar sem heimilt verður að hafa vörurnar sýnilegar þegar inn í verslun er komið.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um skorður við notkun rafrettna. Óheimilt verður að nota þær í þjónusturýmum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og öðrum menntastofnunum, sem og í öðrum húsakynnum sem ætluð eru til dagvistunar og félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og ungmenna, á heilbrigðisstofnunum og öðrum stöðum þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, í almenningsfarartækjum og í fangelsum, að undanskildum þeim undantekningum sem tilgreindar eru í frumvarpinu.

Í IV. kafla frumvarpsins er lagt til að Neytendastofa fari með markaðseftirlit með rafrettum og áfyllingum í samræmi við ákvæði laganna og reglna settra samkvæmt þeim. Þá er lagt til að framleiðendum og innflytjendum rafrettna og áfyllinga, sem þeir hyggjast setja á markað, sé gert að tilkynna um slíkt til Neytendastofu sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð og er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á tilkynningum til Neytendastofu. Neytendastofu er einnig veitt heimild til að taka gjald fyrir móttöku tilkynninga og er henni gert að birta á vef sínum upplýsingar um þá aðila sem uppfyllt hafa skilyrði tilkynningarinnar. Þá er Neytendastofu gert heimilt að krefjast þess að framleiðendur eða innflytjendur rafrettna og áfyllinga veiti upplýsingar um tiltekna hluta vörunnar og innihald hennar, auk þess að leggja fram sýnishorn af vöru í því magni sem nauðsynlegt er til að meta eiginleika hennar og áhrif. Einnig er sú skylda lögð á herðar framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum að grípa tafarlaust til ráðstafana ef ástæða er til að ætla að rafrettur og áfyllingar sem eru í vörslu þeirra séu ekki öruggar eða að öðru leyti ekki í samræmi við lög. Einnig er framleiðendum og innflytjendum rafrettna og áfyllinga gert að upplýsa embætti landlæknis og Neytendastofu árlega um sölu og neysluvenjur á rafrettum og áfyllingum í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Þá er embætti landlæknis, í samráði við ráðuneyti heilbrigðismála, gert að sjá til þess að fram fari reglubundin fræðsla um áhrif notkunar rafrettna á heilsu og hættu samfara meðhöndlun rafrettna og áfyllinga.

Að lokum er í frumvarpinu lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, þess efnis að eftirlit með auglýsingabanni því sem lagt er til í frumvarpinu verði í höndum fjölmiðlanefndar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins, en það frumvarp sem hér er lagt fram felur í sér að sambærilegar reglur muni gilda um notkun rafrettna og um notkun reyktóbaks og einnig um markaðssetningu og aldursmörk.

Síðastliðin ár hefur notkun rafrettna aukist ört hér á landi og við því verður að bregðast þar sem ekki hefur verið sýnt fram á skaðleysi varanna. Með frumvarpinu er aðgangur fullorðinna einstaklinga sem vilja nýta sér rafrettur til að hætta eða minnka tóbaksneyslu tryggður. Aðgangurinn er tryggður, virðulegi forseti. Á sama tíma er verið að draga úr líkum á því að ungt fólk ánetjist nikótíni og því er reynt að sporna við sýnileika varanna með auglýsingabanni, einnig banni við sýnileika í verslunum og öðrum aðgerðum sem ætlað er að hindra að nýir notendur ánetjist rafrettum.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að eiga góða umræðu um þetta mál hér í þingsal og leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og til 2. umr. Ég legg áherslu á málefnalega úrvinnslu málsins, þar sem fyrir liggur, að við erum í þeirri stöðu, samkvæmt Evrópulöggjöf, að þurfa að setja um þetta lög. Í samráði við þingið vænti ég þess að sú lagasmíð verði með sem farsælustum hætti fyrst og fremst fyrir lýðheilsu og ekki síður fyrir þá neytendur sem þessa leið kjósa.