148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:07]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður verður að eiga það við hæstv. ráðherra af hverju hann hefur ekki fylgt því eftir að leggja frumvarpið fram. Ég hef bara ekki spurt hann að því.

Hv. þingmaður grípur til þess sem oft er gripið til í umræðunni að nefna sögu um Reykjanesbæ til að bera saman við þá hrakfallasögu sem rekstur og stjórn Reykjavíkurborgar hefur þurft að búa við núna í nokkuð mörg ár. Það er auðvitað ólíku saman að jafna, virðulegi forseti, ekki síst ef litið er til þess að þar hrundi mjög stór vinnustaður og tekjustofnar á einni nóttu á mjög skömmum tíma. Slíkt hefur áhrif. Það hefur áhrif ef snjóflóð falla á byggðir og þá þarf að grípa til ráðstafana, en það á ekki við um Reykjavík. Miklu frekar hefur þar verið mikill stöðugleiki, þar er reyndar ekki eins mikil fjölgun íbúa vegna þess að menn hafa ekki staðið sig nægilega vel í þeim efnum.

Grundvallaratriðið er þetta: Ef Píratar hafa hugmynd um það að auka við frelsisákvæðið í frumvarpinu vænti ég þess að þeir komi með breytingartillögu við það (Forseti hringir.) þar sem opnað er á það sem fulla sjálfsstjórn sveitarfélaga um þennan fjölda en leggi ekki stein í götu þess að afgreiða a.m.k. þetta skref í gegn.