148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:18]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ræða fjármál Reykjavíkurborgar og stöðu Reykjavíkurborgar. Ég held að það sé best að það gerist á öðrum vettvangi. Það er alveg ljóst að fulltrúar Pírata trúa því að þar séu málin í góðu lagi og verður felldur dómur um það í kosningum í vor af kjósendum í Reykjavík hversu ánægðir þeir eru með fjármálastjórn Reykjavíkurborgar og hvernig hún hefur þróast á undanförnum árum.

Hefur það þá áhrif, að þeim verði ekki fjölgað, að erfiðara verði fyrir minni hópa að koma inn fulltrúum? Já, það gefur augaleið. Ef fulltrúum fækkar í sveitarstjórnum getur það orðið erfiðara. En það er ekki lagt til í þessu frumvarpi. Það er bara verið að leggja til að kjörnir fulltrúar, í Reykjavíkurborg í þessu tilfelli, hafi þennan ákvörðunarrétt, og reyndar að sveitarstjórnarfulltrúar, kjörnir fulltrúar um allt land fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, geti tekið þessar ákvarðanir. Fyrir því eru mjög sterk rök (Forseti hringir.) að þessar ákvarðanir verði teknar á heimavelli en að ekki sé skákað í skjóli laga sem Alþingi setti um þessi mál.