148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

fjárfestingar í rannsóknum og þróun.

191. mál
[16:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hygg að við gætum rökrætt þetta með hlutfallið á ýmsa vegu. Ég held að hv. þingmaður hafi svarað þessu ágætlega og viðurkennt að það er oft varhugavert að festa hlutfall við það hvernig hagkerfið sveiflast, getum við sagt.

Vissulega höfum við gert margt vel. Ég held að íslensk stjórnvöld séu mjög meðvituð um hversu mikilvægt það er að efla nýsköpun, rannsóknir og þróun á hverjum tíma. Í stjórnarsáttmálanum kemur til að mynda fram að til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni, sem rannsóknir og þróun snúa auðvitað að, á að endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar.

Ég vil í seinna andsvari spyrja hv. þingmann um þetta. Nú höfum við endurgreitt 20%, við höfum verið með þak á þessum greiðslum. Þetta er vissulega mjög mikilvægt. Þetta er misjafnt eftir löndum ef við skoðum það. Þetta tengist auðvitað því, þegar við förum að festa okkur við eitthvert ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu, að það er svo margt annað gert. Ég nefni aðferðafræði eins og klasana, sjávarklasann og jarðvarmaklasann. Það er ekkert annað en ákveðin aðferðafræði rannsókna og þróunar og nýsköpunar. Ég vil kanna hug hv. þingmanns til þessa þáttar, þessarar ívilnunar, að endurgreiða kostnað og með þakið. Myndi hv. þingmaður vilja afnema það með öllu eins og er í raun lagt fram í stjórnarsáttmálanum? Og endurgreiðsluhlutfallið, hafa flutningsmenn tillögunnar og hv. þingmaður mótað sér skoðun á því?