148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

málefni forstjóra Barnaverndarstofu.

[15:24]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil segja um þetta að niðurstöðurnar eru þær að Barnaverndarstofa eða forstjóri hennar hafi ekki brotið af sér með neinum hætti. Hins vegar eru mörg álitamál sem þarf að fara ofan í og menn eru sammála um.

Á föstudaginn var þessi niðurstaða kynnt fyrir barnaverndarnefndunum. Jafnframt var það kynnt að Bragi Guðbrandsson hefði óskað eftir leyfi og hefði óskað eftir stuðningi ríkisstjórnarinnar við það að fara í framboð til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar held ég að staða hans sé sterk með hliðsjón af þeim málum sem hann hefur unnið að í þessum málaflokki í yfir 20 ár, m.a. með uppbyggingu á Barnahúsi og með starfi sínu í Lanzarote-nefndinni og fleiru.

Ég hvet velferðarnefnd til þess að fara ofan í öll þessi mál og ég hlakka til þess að koma fyrir nefndina á miðvikudaginn. Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að menn setji sig ítarlega inn í þessi mál til að skilja hvar þurfi breytingar í málaflokknum og mér finnst, með því að hafa farið ofan í þennan málaflokk, (Forseti hringir.)að ég skilji betur hvaða breytingar þurfi að gera og með hvaða hætti og það er mikilvægt að þingið, þvert á flokka, geri það líka (Forseti hringir.)og komist vonandi á sömu blaðsíðu.