148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

breikkun Vesturlandsvegar.

[15:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að efnahagsástandið á Íslandi er mjög gott og afkoma ríkissjóðs með afbrigðum góð og hefur tekist nokkuð vel til við það. Fyrir kosningar lofuðu allir flokkar því að nýta fjármuni úr fjármálakerfinu til innviðauppbyggingar, þar á meðal í samgöngukerfið, og þar á meðal flokkur hv. þingmanns. Þeir lofuðu reyndar að gefa almenningi líka bankann. Það virðist ekki hafa átt að kaupa hann fyrir nokkurn skapaðan hlut. Þeir gleymdu því líka að ríkið átti nú stóran hlut í bankanum eftir mjög góða stöðugleikaskilyrðasamninga sem voru gerðir á þarsíðasta kjörtímabili.

Ég vænti þess að við munum hafa fjármuni til verksins og ítreka það sem ég hef áður sagt að við erum að vinna að samgönguáætlun. Ég get auðvitað ekki sagt nákvæmlega hvar hver vegkafli er fyrr en sú áætlun liggur fyrir, en ég get sagt með mikilli vissu að fundir sem sýna slíka samstöðu sem kom fram á þessum fundi og eins á fundinum á Akranesi þar sem það er algerlega skýr sýn allra íbúa og sveitarfélaga á stóru svæði um hvert sé mikilvægasta verkefnið — ríkisvaldið hlýtur að horfa mjög til slíkrar forgangsröðunar (Forseti hringir.) þegar það liggur fyrir. Það er þakkarvert og mun hjálpa okkur við ákvarðanatökuna.