148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[16:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég hef setið í 11 ár á þingi núna í vor. Mér finnst umræðan hér vera komin á nýtt stig sem ég hef ekki upplifað áður. Það er mjög alvarlegt, virðulegi forseti, mjög alvarlegt.

Hér er verið að ásaka starfsmenn þingsins, forseta þingsins um að sinna ekki hlutverkum sínum, sinna ekki vinnuskyldum sínum. Gefið er í skyn að horft sé fram hjá augljósum lögbrotum sem hafi átt sér stað hjá hv. þingmönnum. Það er algjörlega óviðeigandi og alveg nýtt í mínum huga að slíkt skuli vera tekið upp á vettvangi þingsins, í þingsal.

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óboðlegt og þingið hlýtur að þurfa bregðast við því. Yfirstjórnin þarf að taka til varna fyrir starfsmenn sína og fyrir forseta þingsins. Við getum ekki látið bjóða okkur þetta lengur. Hér er síðan talað um að traust á Alþingi sé ekki mikið úti í bæ og að það sé vegna þess að starfsmenn þingsins og forseti þingsins og þeir sem bera ábyrgð hér, kasti sandi í tannhjólin til þess að hylma yfir einhver dæmi sem gefið er í skyn með ómerkilegum hætti að hafi átt sér stað.

Það er ekki von til þess að við náum að vinna það traust sem við höfum öll oft rætt um að sé mikilvægt fyrir þingið að vinna til baka. Það gerist ekki með slíkum munnsöfnuði, með slíkum málflutningi eða slíkum vinnubrögðum sem hér eru stunduð.