148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Það er sannarlega afar mikilvægt mál sem hér er tekið upp og ber að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir frumkvæði hans í þessu. Eins þakka ég ráðherra.

Ekki er annað að sjá en að brotalamir séu í skólakerfinu sem hlýtur að verða að leita víðtækra lausna á. Eitt kann að liggja í kennaranáminu, hvort fólk er raunverulega í námi til þess að verða kennarar eða kennslufræðingar eins og vakin hefur verið athygli á. Það er vitað að læsisvandinn snýr fremur að drengjum en stúlkum. Það leiðir hugann að því að kannski er hér á ferðinni birtingarmynd víðtækari þjóðfélagslegs veruleika sem sést m.a. á því að ungir drengir eru síður læsir en stúlkur. Það sést á því að drengir falla frekar brott úr framhaldsskólum. Það sést á því að karlar eru í miklum minni hluta í háskólanámi og meðal útskrifaðra doktora.

Sömuleiðis eru ógnvekjandi tölur um unga karlmenn, fjölskyldumenn, fótboltaáhugamenn, menntaða menn, sem falla fyrir eigin hendi. Það þarf að grafast fyrir um ástæður þess að ungir karlmenn upplifa sig í þessu samfélagi með þeim hætti (Forseti hringir.) sem þessar staðreyndir eru til marks um. Það hlýtur að verða að leita vandlega eftir skýringum og þar má ekkert vera undanskilið, ekki þjóðfélagsumræða eða neitt annað. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Þessi hópur á sér engan málsvara í íslensku samfélagi.