148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:55]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er alveg óendanlega þakklát málshefjanda og hæstv. menntamálaráðherra fyrir að við skulum vera hér og nú að ræða þetta mál, sem er vanlæsi unga fólksins okkar í dag. Ég hef hrópað um stræti og torg í eitt og hálft ár, sagt setninguna: Gerið þið ykkur grein fyrir því að yfir 30% ungra drengja útskrifast með lélegan lesskilning eða illa læsir úr 10. bekk? Ég segi: Það er góðra gjalda vert að fjölga bókum. Það er góðra gjalda vert að vera með alls konar skimanir, en það er alveg á hreinu að þessar tölur tala sínu máli. Yfir 30% drengja með lélegan lesskilning eru útskrifaðir úr 10. bekk og við eigum að byrja á því að reyna að kenna þeim að lesa. Hvernig förum við að því? Það er alla vega ekki með því að lengja kennaranámið í fimm ár án þess að umbuna kennurum á nokkurn hátt fyrir það.

Það er í rauninni kominn tími til að hugsa: Hvers vegna er verið að kalla eftir allri þessari sálfræðiþjónustu inn í framhaldsskólana? Er ekki hægt að sjá það í hendi sér að ungur drengur, 16 ára gamall, sem stígur inn í menntaskóla eða framhaldsskóla og vill mennta sig á einhverju sviði, hlýtur að gefast upp? Það þarf enginn að vera undrandi á því þó að afföll séu úr skólakerfinu þegar unga fólkinu okkar líður ömurlega vegna þess að það getur ekki lesið og getur ekki fylgt eftir og fylgst með því sem það þarf að gera. Það biður um sálfræðihjálp. Það er algjörlega sjálfsagt í stað þess að fjölga bókum og fjölga hinu og þessu og eyða fjármagni í hitt og þetta að koma sálfræðihjálpinni inn í skólakerfið. Við skulum hjálpa unga fólkinu og taka utan um það.

Fyrst og síðast ætla ég að koma hér með eina sprengju, hæstv. forseti, sem mér finnst vera virkilega tímabært að skoða alvarlega, það heitir einfaldlega: Skóli án aðgreiningar.