148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lýðháskólar.

184. mál
[17:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurn hennar og að koma með þetta mál í umræðuna og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að skýra út þá vinnu sem er í ráðuneytinu. Ég fagna öllu sem fram hefur komið varðandi þessa skóla, vegna þess að þetta er hluti af því að gera okkar menntakerfi fjölbreyttara og full þörf á.

Hér benti hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir á alþýðuskólana og starf ungmennafélaganna með leiðtoga- og félagshæfni. Það smellpassar inn í þessa mynd. Ég vildi taka undir með hv. fyrirspyrjanda varðandi það og styð heils hugar þann skóla sem fyrirhugaður er á Laugarvatni vegna þess að ef við skoðum vinnumarkaðinn inn í framtíðina þá eru eiginleikarnir sem við horfum til einmitt (Forseti hringir.) forysta, frumkvæði, félagshæfni og færni til að vinna saman.