148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

innbrot á höfuðborgarsvæðinu.

211. mál
[17:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, sem fullt tilefni er til að ræða hér í þingsal og annars staðar einnig, ástand sem hefur verið í fréttum varðandi brotastarfsemi og vaxandi — eða einhvers konar innbrotahrinu. Það er kannski ekki rétt að tala um vaxandi innbrotahrinu, ég ætla að fara yfir það rétt á eftir.

Það er alveg rétt að full ástæða er til að hafa áhyggjur þegar fréttir berast af einhvers konar innbrotahrinu, eða einhvers konar hrinu brota, af hvaða tagi sem þau brot eru. Þessar fréttir hafa verið núna í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Frétt var í morgun af Vesturlandi þar sem gengið er á rétt heimilisins, brotið gegn friðhelgi þess með slíkum hætti. Það er mjög alvarlegt.

Ég nýtti kjördæmaviku m.a. til að eiga fund með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, stjórnendum lögreglunnar, og ræddi þessi mál. Ég var fullvissuð um að lögreglan er mjög meðvituð um þetta og leggur sig í líma við að gera það sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir þessi brot og í öllu falli að upplýsa þau þegar ekki hefur verið hægt að koma í veg fyrir þau. En lögreglan hefur lagt áherslu á og brýnt mjög reglulega við almenning að huga að forvörnum við hvert einasta heimili. Það verður ábyggilega aldrei of oft kveðin sú vísa hversu mikilvægar forvarnir eru.

Ég hef einnig óskað eftir almennri umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um hvort gripið hafi verið til sérstakra aðgerða vegna þeirrar innbrotahrinu sem hv. þingmaður vísaði til. Í svari embættisins til mín kom fram að embættið lítur þessi innbrot alvarlegum augum. Það er ofarlega í forgangi að upplýsa þau brot. Það hafa líka verið sett saman sérstök teymi rannsóknarlögreglumanna og annarra sérfræðinga lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að vinna að rannsóknum þessara mála. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi að í einhverjum tilvikum virðist vera um skipulagða brotastarfsemi að ræða sem kallar þá á annars konar rannsóknarvinnu og ítarlegri en í hefðbundnum innbrotamálum, ef hægt er að orða það svo.

Mig langar að nefna líka að ég kallaði eftir tölum um þróun þjófnaðarbrota undanfarin ár. Það er svo sem ánægjulegt að geta nefnt að þeim þjófnaðarbrotum hefur farið mjög fækkandi samkvæmt afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra sem er gefin út árlega. Flest þjófnaðarbrot, og þá er ég að miða við brot sem varða 244. gr. hegningarlaga, áttu sér stað árið 2009. Þá voru skráð 3.524 brot. Langflest á höfuðborgarsvæðinu. En fæst voru þau árið 2016, eða 1.038 talsins. Ég hef nú ekki staðfestar tölur fyrir árið 2017 en fjöldi brota er á þessu bili. Það væri freistandi fyrir mig að telja þetta til marks um þá auknu velmegun sem ég held að svo sannarlega allir finni fyrir eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í ríkisstjórn fyrst eftir hrun, en ég sé það á tölunum hins vegar að því er ekki að heilsa, ég get fullyrt það, því að brotin voru líka ofboðslega mörg á árunum fyrir hrun í allri þeirri velmegun. Þannig að ekki tengjast þessi brot almennu efnahagsástandi. Það væri kannski held ég óvarlegt að fullyrða nokkuð um það.

Þessi brot eru öll hin andstyggilegustu, eins og hv. þingmaður nefndi. Fólk upplifir mikinn vanmátt og vanlíðan eftir slík brot. Það er mjög mikilvægt að hægt sé að gefa út þau skilaboð að lögregluyfirvöld geri hvað þau geta til að koma í veg fyrir þau. Ég nefni því þessar tölur. Þessum innbrotum hefur farið mjög fækkandi. Lögreglan er með virkt eftirlit í öllum íbúðarhverfum á höfuðborgarsvæðinu og úti um landið allt þótt við viljum svo sannarlega gera betur með því t.d. að fjölga lögreglubifreiðum (Forseti hringir.) á ferð um íbúðarhverfi.