148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

innbrot á höfuðborgarsvæðinu.

211. mál
[17:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Já, það er algerlega óumflýjanlegt, eins og kom fram áðan, að efla löggæsluna. Bæði út af þessari innbrotahrinu en líka hinni skipulögðu brotastarfsemi sem er augljóst að tengist. Því það virðist vera, bæði af svörum ráðherra að dæma og líka þegar maður fetar sig í gegnum þau gögn og viðtöl sem hafa verið tekin. Það þarf að efla löggæsluna. Búið er að skrifa skýrslur og skýrslur og skýrslur sem voru kynntar m.a. hér á þinginu þvert á flokka. Ég ætla ekki að gagnrýna einn flokk umfram annan. En allir flokkar tóku undir þá leiðsögn að nauðsynlegt væri að fjölga lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu. Ef hæstv. dómsmálaráðherra þarf á stuðningi að halda til að efla lögregluna fær hæstv. ráðherra þann stuðning hjá Viðreisn. Svo það sé sagt. Það er nauðsynlegt að fara í að efla löggæsluna og styrkja, þótt margt hafi verið vel gert innan þess ramma sem lögreglunni er í núna.

Það sem kom fram í kjördæmavikunni eftir samtal við bæði kjósendur og sveitarstjórnarfólkið okkar, og það var alveg skýrt, að fyrir utan menntamálin og samgöngumálin þarf að styrkja þessa innviði. Það tóku allir fram mikilvægi lögreglunnar, að halda betur utan um hana, gera lögregluna sýnilegri, þannig að hægt væri að veita fólki meiri öryggiskennd en nú er á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru þau skilaboð sem við færum frá sveitarfélögum, sem oft og tíðum eru einmitt undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru þau skilaboð sem við erum að færa til hæstv. ráðherra. Ég vona að hún taki vel í þau.

Fyllsta ástæða er til að hafa miklar áhyggjur vegna skipulögðu brotastarfseminnar og því mun mikilvægara að við sem erum á þingi sendum út skilaboð, sendum líka hæstv. ráðherra vel nestaðan héðan, styðjum hana í að efla löggæsluna til að fólk á höfuðborgarsvæðinu — eins og ég ítreka oft: Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu — geti sofið betur.