148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Skattstofnar framtíðarinnar eru fullnýttir, segir deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson, í grein sem birtist í tímariti hagfræðideildar og ber yfirskriftina „Svartur eða hvítur köttur?“. Hann segir jafnframt að velferðarþjónusta verði ekki bætt eða aukin nema með kerfisbreytingum, aukinni skilvirkni og nýjum fjármögnunarleiðum.

Þetta er athyglisverð grein sem tekur á risastórum áskorunum í okkar samfélagi til framtíðar.

Jafnframt er að finna skilaboð til okkar stjórnmálamanna um hvernig við nálgumst umræðuna. Skírskotað er til fyrirsagnarinnar þar sem segir að brátt komi að því að stjórnmálafólk hætti að þræta um svarta og hvíta ketti og hugi að músaveiðunum sjálfum. Vísar greinarhöfundur þar í orð Deng Xiaoping og viðbrögð við því af hverju kommúnistaríkið leyfði kapítalisma.

Það skiptir ekki máli hvort kötturinn er svartur eða hvítur svo lengi sem hann veiðir mýs. Okkur stjórnmálafólki er oft legið á hálsi fyrir að ræða hér mjög markmiðin en síður leiðirnar í átt að lausnum. Eigi þetta sérstaklega við þegar kemur að því að ræða á hvaða forsendum eigi að veita opinbera þjónustu, skilin milli opinberrar þjónustu og einkarekstrar. Mörk ríkis og einkarekstrar eru og verða pólitík, hvað sé æskilegt og hvað ekki. En ábending í þessu á við um það hvernig við nálgumst umræðuna og fær á sig mynd við nýjustu úttekt Ríkisendurskoðunar um heilbrigðiskerfið og kaupanda heilbrigðisþjónustu, Sjúkratryggingar Íslands, þar sem meginniðurstaðan er skortur á stefnu og að verulega vanti á hagkvæmni og skilvirkni í kerfinu.

Virðulegi forseti. Þetta eru sannarlega áskoranir okkar (Forseti hringir.) og mikilvægt að einbeita sér að músaveiðunum.