148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

vátryggingastarfsemi.

247. mál
[14:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi.

Með frumvarpinu er lagt til að leidd verði í lög um vátryggingastarfsemi þau ákvæði í tilskipun 2014/51/ESB sem ekki voru innleidd þegar lög nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, voru sett.

Þessi tilnefnda tilskipun breytti eldri tilskipun 2009/138/EB um vátryggingastarfsemi sem var tekin upp í EES-samninginn árið 2011 og var innleidd þegar gildandi lög um vátryggingastarfsemi voru sett. Ein af mörgum breytingum var ákvæði vegna hinna nýju evrópsku eftirlitsstofnana.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða að mestu valdheimildir Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar sem tóku gildi með lögum nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, þegar reglugerð 1094/2010/ESB, um þessa sömu eftirlitsstofnun, var lögfest hér á landi. Þessi eftirlitsstofnun er gjarnan skammstöfuð EIOPA. Sú reglugerð var aðlöguð þegar hún var tekin upp í EES-samninginn. Í vissum tilvikum voru valdheimildir færðar frá EIOPA til Eftirlitsstofnunar EFTA einkum þegar um var að ræða bindandi valdheimildir gagnvart EFTA-ríkjunum.

Áformað er að taka tilskipun 2014/51/ESB upp í EES-samninginn á fyrri hluta þessa árs. Því er frumvarpið lagt fram nú.

EIOPA var sett á stofn til að hafa eftirlit á vátryggingamarkaði og hefur stofnunin ríkar valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum og vátryggingafélögum aðildarríkja. Lagaumhverfið er nánast eins í aðildarríkjum EES-samningsins og er EIOPA mikilvæg stofnun til að tryggja samstarf eftirlitsstjórnvalda aðildarríkja og samræmingu í framkvæmd. EIOPA hefur heimild til að setja tæknilegar reglur um vátryggingastarfsemi og stofnunin hefur beint ákvörðunarvald í vissum tilvikum gagnvart eftirlitsstjórnvöldum og getur gripið inn í atburðarás til að leysa úr ágreiningi þeirra.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið skuli setja reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum EIOPA um félög með sérstakan tilgang og um tilkynningar um fyrirhuguð kaup eða aukningu á virkum eignarhlut í vátryggingafélagi.

Í öðru lagi getur Fjármálaeftirlitið óskað aðstoðar EIOPA eða Eftirlitsstofnunar EFTA eftir atvikum ef því er ekki heimilað að gera vettvangsathugun í öðru aðildarríki vegna útvistaðrar starfsemi vátryggingafélags þar eða ef það fær ekki að taka þátt í vettvangsathugun hjá útibúi hér á landi eða í öðru aðildarríki.

Í þriðja lagi er kveðið á um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að tilkynna EIOPA um ákveðin atriði eða veita tilteknar upplýsingar, m.a. um veitt starfsleyfi eða synjun þess um að vátryggingafélag stofni útibú eða veiti þjónustu hér á landi.

Í fjórða lagi mun Eftirlitsstofnun EFTA taka ákvörðun það um hvort aðstæður teljist það óvenjulegar eða óhagstæðar að ástæða sé til þess að Fjármálaeftirlitið veiti vátryggingafélagi framlengingu á fresti sem það hefur fengið til að endurreisa fjárhag sökum þess að það fullnægi ekki gjaldþolskröfu.

Í fimmta lagi verður EIOPA heimilað að taka þátt í vettvangsathugunum hjá vátryggingafélagi, útibúi eða þjónustuaðila vegna útvistunar hér á landi ef athugunin er gerð sameiginlega hjá tveimur eða fleiri eftirlitsstjórnvöldum.

Í sjötta lagi eru lögð til nokkur ákvæði sem þykja nauðsynleg vegna innleiðingar á tilskipun 2009/138/EB í lögum um vátryggingastarfsemi. Meðal annars er verið að styrkja lagastoð fyrir reglum og gera takmörkun á gildissviði laganna skýrari.

Að lokum er lagt til að fallið verði frá því skilyrði í eldri lögum um vátryggingastarfsemi að tímamörk séu á því hvenær uppgjöri vátryggingastofns sé lokið. Ákvæðið mun gilda um eitt vátryggingafélag sem er í slitum, ef ljóst þykir að ekki verður hægt að ljúka slitum á því innan settra tímamarka.

Ekki gert ráð fyrir að áhrif EIOPA og Eftirlitsstofnunar EFTA sem eftirlitsaðila verði mikil hér á landi, ekki er gert ráð fyrir því, þar sem áhrifa þeirra mun eingöngu gæta ef ágreiningur verður á milli Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsstjórnvalda í öðrum aðildarríkjum.

Verkefni Fjármálaeftirlitsins munu aukast nokkuð vegna meiri samskipta við EIOPA og aukinna gagnaskila, en kostnaður af því er ekki talinn verulegur. Innleiðingin stuðlar að því að reglur hér á landi verða samræmdar við Evrópska efnahagssvæðið og Ísland mun uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum.

Virðulegi forseti. Helstu áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, eru að bæta eftirlit á vátryggingamarkaði og vernda þannig neytendur og almenning fyrir áföllum sem geta orðið á markaðnum.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.