148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og skil hann fullkomlega.

Það sem mér finnst vera meginefnið okkar hér og nú, það er ekki Gamla testamentið eða trúin neins staðar í rauninni, heldur eru það reglurnar okkar, samfélagið okkar, umgjörðin okkar, mannréttindi sem við byggjum á. Ég segi enn og aftur: Virðum einstaklinginn. Virðum frelsi hans til að ákveða sjálfur hvaða línu hann tekur í trúmálum sínum. Gefum honum trúfrelsi. Það er það sem við boðum hér. Við boðum frelsi og mannréttindi. Við erum með stjórnarskrá sem bannar pyndingar. Ég segi: Um leið og við förum eftir okkar eigin lögum, sem ég held í rauninni að nái nú þegar utan um bann við pyndingum á sveinbörnum, verðum við líka að hnykkja á því til samræmis við þau lög sem þegar hafa verið sett hvað varðar umskurð stúlkna. Þar kemur aftur inn, eins og ég vísaði til áðan í ræðu minni, jafnræðisreglan. Um leið og við tökum sjálf utan um löggjöfina og regluverkið vitum við nákvæmlega hvar við erum stödd.