148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að taka aðeins undir það sem hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði áðan þegar orðaskipti voru hér um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og allt það, ég tek undir það að ég held að óhugsandi sé að slíkur sáttmáli hefði verið samþykktur af Sameinuðu þjóðunum, þjóðum heimsins, ef skilningurinn hefði verið sá að umskurður myndi falla þar undir. Ég tek undir það.

Hins vegar er það alveg til umhugsunar, ef maður les barnasáttmálann og rök flutningsmanna fyrir þessu án tillits til trúarhefðarinnar, þá er augljóst að umskurður væri brot á réttindum barnsins, það er mjög augljóst. En það er vegna þess að umskurður er einhvern veginn svo rótgróinn hluti af vestrænni menningu sem einhvern veginn gleymist að hann sé með.

Aftur hugsa ég líka að það varði það að fólk hefur verið að segja mjög lengi að þetta sé ekki sársaukafullt, sé ekki hættulegt, eitthvað sem ég er efnislega ósammála og tel vera augljóst að sé rangt hjá stuðningsmönnum umskurðar. En ef maður telur þetta vera skaðlaust þá telur maður það auðvitað skaðlaust. Svo ef (Forseti hringir.) í ljós kemur að það sé ekki skaðlaust þá auðvitað hljótum við að lesa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með hliðsjón af því.