148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:16]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að grípa niður í ræðu hv. þingmanns áðan um stuðning alþjóðlegra stofnana við slíkar aðgerðir á drengjum. Hann nefndi til dæmis að umskurður væri vörn gegn HIV-smiti, að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefði bent á það. Ég hef lesið rannsóknir og vísa í greinargerð Barnaheilla, sem eru viðurkennd samtök sem berjast fyrir réttindum og vernd barna, um rannsókn frá 2013, sem 38 læknar gerðu, sem hrekur þessar fullyrðingar. Þeir segja að þær rannsóknir sem gerðar eru í Afríku séu vísindalega mjög ófullkomnar. Ég er ansi hrædd um að við þurfum að skoða þetta betur. Foreldrar eru í öllum tilfellum að gera það sem þeir telja best fyrir börnin sín. Þegar foreldrum er sagt: Þú verður að gera þetta, þetta er hreinlegra, þú verður að verja barnið þitt fyrir sjúkdómum, telur foreldrið að það sé að gera góða hluti. Þess vegna verðum við að fara yfir þessa læknisfræðilegu hluti, skoða nýjar rannsóknir og hlusta á lögfræðinga, (Forseti hringir.) mannréttindasérfræðinga og lækna og hjúkrunarfólk sem þekkir þetta mjög vel. Engar svona bábiljur.