148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir hans framlag til þessa máls. Mig langar að spyrja hvort hann sé ekki sammála mér að því leyti til að þetta mál varðar ekkert trúarbrögð. Þetta er eiginlega spurning um hvort beita megi barn ofbeldi. Síðan er spurning um hvenær barn hættir að vera barn og verður fullorðið. Ég myndi telja það vera um 18 ára aldur. Það er svolítið skrýtið að mér finnst að þarna ættu allar ákvarðanatökur að vera, um 18 ára aldur, þá væri fólk orðið fullorðið, og engin misskipting í því hvort það megi eða megi ekki kaupa áfengi eða gera hitt eða þetta — allt miðað við 18 ár, þá er það bara einfalt.

Í sambandi við kynleiðréttingar myndi ég segja að spurningin sé alltaf hvenær foreldrar megi grípa inn í. Ég tel að foreldrar verði alltaf að grípa inn í ef útlit er fyrir að barnið verði fyrir skaða. Ef það getur valdið barninu tjóni að ekkert sé að gert. Annars ekki. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í þessu. Við umskurð virðist tveimur aðferðum beitt og þær eru báðar slæmar, önnur sýnu verri og eiginlega ólýsandi. Ég spyr hvort hann sé ekki sammála mér um að þetta sé einfaldlega spurning um ofbeldi gagnvart börnum sem eigi ekki að líðast.