148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni.

244. mál
[17:28]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér erum við enn að ræða mjög mikilvæg mál. Hér er stórra spurninga spurt. Ég verð að lýsa aðdáun minni á því hvað ráðherra tókst að komast yfir mikið efni og svara hér á stuttum tíma.

Við þurfum greinilega að undirbúa okkur undir breytingar, það sem hefur verið að breytast undanfarið. Þjónustan úti um land hefur verið að dragast saman. Það er alveg rétt sem fólk hefur verið að tala um hér, þetta er einn af þeim þáttum sem fólk horfir til þegar það ákveður hvar það ætlar að setja sig niður. Það er gríðarlega mikilvægur þáttur. Ég get ekki til þess hugsað að það verði til þess að veikja stöðu byggðanna enn þá meira úti um land. Ég hvet því ráðherra, líkt og ræðumaðurinn hér á undan gerði, að huga því að hvernig við getum eflt heimilislækningar.

Svo er spurning um svæðin, hvað við leggjum áherslu á og á hvaða svæðum. Ég vil benda á Sjúkrahúsið á Akureyri, hvort við getum eflt og styrkt stöðu þess til að þjónusta Austurland, Norðurland og jafnvel fleiri svæði, og taka jafnvel við sjúklingum að sunnan til að létta á öðrum stofnunum.