148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

stuðningur við Samtök umgengnisforeldra.

224. mál
[18:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Upprunalega var þessi fyrirspurn og sú fyrri í sömu fyrirspurn. Þeim var skipt upp af einhverjum orsökum. Það er svo sem ágætt því að þetta eru tvö mismunandi mál að vissu leyti. Þetta mál snýr að Samtökum umgengnisforeldra og ákvörðun um að veita þeim ekki fjármagn á árinu 2018, þannig að það er núverandi ráðherra sem á að taka ákvörðun um það.

Á vefsíðu Samtaka umgengnisforeldra er starfi þeirra lýst svo, með leyfi forseta:

„Megináherslur samtakanna er að leiðrétta þurfi aðkomu umgengnisforeldra að velferðarkerfinu og að stemma þurfi stigu við ástæðulausum umgengnistálmunum. Grundvöllur okkar baráttu er að þjóðfélagshópurinn verði sýnilegur með bættri almannaskráningu, þannig að hægt verði að fella hann inn í hagskýrslugerð Hagstofunnar og að hann verði rannsóknarhæfur þjóðfélagshópur með tilliti til tölfræðirannsókna og annarra fræðilegra úttekta. Ef umgengnisforeldrar eru skráðir sem umgengnisforeldrar í Þjóðskrá verður hægt að rannsaka fjárhagslega og félagslega hagi þeirra og leggja þær rannsóknir til grundvallar stefnumótun velferðarmála og við samningu löggjafar er varðar hagsmuni þjóðfélagshópsins.“

Þjónustan sem samtökin veita er t.d. aðstoð vegna beiðna, umsókna og samningar greinargerða vegna samskipta við stjórnvöld — enda er það oft tiltölulega flókið mál að tala lögfræði, hún er ekki á allra færi — aðstoð við gerð stjórnsýslukæra vegna ákvarðana stjórnvalda í meðlags-, forsjár- og umgengnismálum og svo almenn ráðgjöf í málaflokknum.

Af minni reynslu að dæma af því að glíma við lögfræðinga og að reyna að tala við þá á íslensku, en þeir hlusta á lögfræði, tel ég tvímælalaust þörf á einhvers konar þjónustu sem hjálpað getur til að túlka þarna á milli.

Hvað þennan málaflokk varðar velti ég fyrir mér af hverju Samtökum umgengnisforeldra var ekki veitt fjármagn árið 2018 og hvaða úrræði — þar má kannski nefna túlkaþjónustu, ef það má orða það þannig — ráðherra hyggst bjóða þeim sem áður sóttu ókeypis þjónustu og ráðgjöf hjá samtökunum.