148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[12:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu og ég held að það sé vel þess virði að hvetja fólk til þess að finna þessa ræðu og hlusta á hana á alheimsnetinu, ef má orða það þannig. Það er tvennt eða þrennt sem mig langar að velta upp við hv. þingmann. Hér kom hv. þingmaður Óli Björn Kárason í andsvar við flutningsmann þessarar ágætu tillögu og velti fyrir sér vaxtahækkun, hvort þessar breytingar myndu ekki leiða af sér að vextir myndu einfaldlega hækka. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverja skoðun á þessu. Nú hefur hann lýst því ágætlega að verðtrygging sé fyrst og fremst eins og belti og axlabönd og smekkur og allt sem hægt er að hafa fyrir lánveitandann og því vaknar sú spurning hvort þessar áhyggjur hv. þm. Óla Björns Kárasonar séu óþarfar.

Mig langar líka að rifja upp með hv. þingmanni að þegar hrunið varð þá fóru menn í það að verja sparifé af öllu afli, sem betur fer, hárrétt aðgerð, og á sama tíma var skipuð nefnd að mig minnir undir forsæti forseta Alþýðusambands Íslands á þeim tíma. Það tók hana örskamma stund að komast að því að það væri ekkert hægt að gera varðandi lántakendur. Það var ekkert hægt að gera fyrir þá sem skulduðu á þessum tíma í hruninu. Það var ekki hægt að aftengja vísitöluna neitt. Eftir sátu skuldarar og við þekkjum svo framhaldið.

Hv. þingmaður nefndi það reyndar ágætlega í sinni ræðu varðandi hag lánveitanda af því þegar vísitölulánin hækka og milljarðarnir streyma bara inn af himnum ofan. Ég velti fyrir mér: Hvernig stendur á því að það eru svona gríðarlega sterkir aðilar þarna úti sem verja þetta kerfi með kjafti og klóm? Ég fæ ekki betur séð en að það séu t.d. Alþýðusamband Íslands, vinnuveitendur, lífeyrissjóðir. Er það vegna þess eins og hv. þingmaður lýsti kannski í byrjun ræðu sinnar að þetta er orðið svo samansúrrað inn í okkar kerfi að menn þekki ekkert annað?