148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[14:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka líka fyrir ágæta umræðu þó að mér líði dálítið eins og sjálfshjálparaðila við að rifja upp ágæta vinnu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra sem ég tel að hafi verið mjög góð, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, og við að rifja upp þegar hv. þm. Oddný G. Harðardóttir var fjármálaráðherra og setti lög um sölumeðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum þar sem kveðið er sérstaklega á um hvernig eigi að fara með kaupréttarákvæðið sem var gert í hluthafasamkomulaginu 2009 og ekki ógagnsærra en svo að það var staðfest með lögum 2012. Ég ætla líka að nefna fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra og fyrrverandi formann Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, sem setti af stað vinnu í kjölfar mikillar umræðu um endurskipulagningu fjármálakerfisins í efnahags- og viðskiptanefnd um að skoða sérstaklega aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi. Það mun koma til þingsins á næstu vikum, væntanlega í vinnu þeirrar nefndar sem er að semja hér hvítbók og menn hafa gaman af að gera lítið úr. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum hvítbók til umræðu um það sem út af stendur eftir allar þær miklu breytingar sem hafa verið gerðar á regluverki fjármálamarkaðarins. Fjármálakerfið í dag er nefnilega ekki það sama og fjármálakerfið 2008. Það er búið að gera mjög miklar breytingar á regluverkinu en ýmislegt stendur út af.

Menn ræða um eignarhald. Ég hef sjálf lagt það til að ekki sé heimilt að hafa eignarhald á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum á lágskattasvæðum. Ég vil að tekið verði til umræðu þegar hvítbókarnefndin skilar af sér hvernig eigi að fara með eignarhaldið, hvernig eigi að fara að því að girða fyrir samruna viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi svo dæmi sé tekið. Það eru þessi viðbótaratriði sem við eigum sem þing að taka afstöðu til. Stöðugleikasamningarnir voru gerðir aðgengilegir almenningi af þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Þeir hefðu betur verið gerðir aðgengilegir fyrr, tel ég vera, af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þegar hann hafði færi til þess.

Það er mikilvægt fyrir almenning að hafa aðgang að þessu þannig að þegar við ræðum um gagnsæið (Forseti hringir.) vil ég bara minna á að hér er unnið að því að gera þessar upplýsingar aðgengilegar. Hér hefur setið ríkisstjórn eftir ríkisstjórn sem hefur gætt almannahagsmuna og ég segi við hv. þingmenn: Hér hafa ýmsir staðið sig vel og mér finnst það bara gott mál.