148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[15:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og hans hlýju orð. Það er ekkert nýtt undir sólinni. Við höfum eiginlega prófað flestar útgáfur. Eitt sinn vorum við með danska krónu, sem mörgum þótti reyndar virka ágætlega. Kannski voru stærstu mistökin við sjálfstæðið þau að halda henni ekki bara heldur taka upp sjálfstæða mynt.

Færeyingum vegnar ágætlega með danska krónu, svo dæmi sé nefnt, þrátt fyrir ósveigjanleikann sem því fylgir. En niðurstaða okkar varð á endanum áratugir í gjaldeyrishöftum þar sem við fórum síðan í gegnum mjög reglubundnar gengisfellingar innan þeirra hafta þegar við vorum búin með gjaldeyrinn okkar, í einfölduðu máli. Síðan höfum við prófað nokkurs konar fastgengisstefnu sem sprakk. Svo prófuðum við hreint verðbólgumarkmið sem sprakk líka. Og Seðlabankinn er núna í raun að reyna að útfæra það sem hann hefur kallað verðbólgumarkmið plús eða plús, plús, plús, eða hvaða tækjum hann kýs að bæta við sig, sem er í raun og veru einhvers konar endurhvarf til haftaumhverfis þó takmarkaðra sé en áður. Þess vegna er okkur vandi á höndum. Ég held að við höfum prófað flestar þær útgáfur með sjálfstæðri mynt sem í boði eru.