148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[15:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við Framsóknarmenn erum í þessum leiðangri, það er augljóst. Við höfum lagt fram mál þess efnis og eins og ég kom að áðan erum við þess vegna í grunninn sammála.

Þegar við tölum um að meta faglega áhrifin af þeim breytingum og þeirri vísitölu sem verður miðað við er ekkert síður mikilvægt, af því að við erum að bera okkur saman við aðrar þjóðir, þær þjóðir sem við erum helst í viðskiptum við, að kanna mælingu í helstu viðskiptalöndum okkar. Þegar við nýtum mælikvarða, á hvaða sviði sem er, er oftast metið samræmi í þeim á milli þeirra aðila sem við berum okkur saman við og svo til lengri tíma að alltaf sé stuðst við sama mælikvarðann. Þess vegna verðum við að vanda vel til verka þegar við ákveðum hvort og hvaða lið (Forseti hringir.) vísitölunnar við tökum út, ég tala nú ekki um að taka allan húsnæðisliðinn út eins og hér er lagt til.