148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[16:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það er við óvígan her að eiga sem þýðir að það þarf að sækja að honum úr öllum áttum. Þess vegna hef ég kosið tangarsókn að hætti Ludendorffs hershöfðingja. Hún birtist m.a. í því að hér liggja fyrir nokkrar fyrirspurnir frá mér sem ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á. Ein er um uppgreiðslugjald á vegum Íbúðalánasjóðs. Önnur er um húsnæðisliðinn og að svör fáist við því frá opinberum aðilum hvaða fjárhæðir hann hefur lagt á heimilin í landinu. Sú þriðja er um eftirlit af hálfu Fjármálaeftirlitsins með þessari verðtryggðu útlánastarfsemi og um leið hvaða reikniformúlur séu í gildi eða hafi verið gefnar út af hálfu opinberra aðila þegar um jafn flókið dæmi er að ræða og hér ræðir um.

Loks vil ég geta þess að ég hef leitað eftir því að hér verði sérstök umræða (Forseti hringir.) á heppilegum tíma um verðtryggingu þar sem fjármála- og efnahagsráðherra yrði til andsvara.