148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn hástemmdra yfirlýsinga og lágstemmdra athafna. Það er kannski vandamálið þegar kemur að þessu máli. Ríkisstjórnin hefur haft sex vikum lengri tíma en síðasta ríkisstjórn hafði til að leggja fram ríkisfjármálaáætlun en það dugir henni ekki, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um það hversu mikið og hraustlega eigi að taka til verks, hversu mikið eigi að efla hér vegsemd og virðingu þingsins. Mér finnst það reyndar lýsa alveg ótrúlegum hroka og vanvirðingu gagnvart þinginu að tilkynna ætlað lögbrot bréfleiðis undirritað af ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins án nokkurrar undangenginnar umræðu við þingið. Þetta er ekki mikil virðing fyrir lagabókstafnum sem er alveg skýr. Fjármálaáætlun á að leggja fram fyrir 1. apríl.

Á sama tíma barmar sér framkvæmdarvaldið í skjóli þessarar ríkisstjórnar undan fyrirspurnaálagi þingsins og boðar til sérstakra ráðuneytisstjórafunda vegna þess. Ég held að framkvæmdarvaldið mætti eyða meiri tíma í að svara þessum fyrirspurnum en í að biðja um sífellda fresti og ræða það álag sem þessum (Forseti hringir.) fyrirspurnum fylgir. Ég hvet eindregið forseta til þess að standa vörð um virðingu þingsins einmitt hvað þetta snertir.

(Forseti (SJS): Forseti reynir sitt besta.)