148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Tíminn til þess að efla Alþingi er núna. Það er ekki hægt að una við tilkynningu um að ekki verði farið að lögum. Og hér er óskað skýrra svara frá virðulegum forseta um viðbrögð við þeirri einhliða tilkynningu. Það liggur alveg fyrir og hefur legið fyrir um aldaskeið að páskar eru færanleg hátíð og það er algjörlega skýlaus krafa að farið verði að lögum í þessum efnum.

Það er eðlilegur þáttur, svo ég víki að hinu atriðinu sem ég gerði að umræðuefni í fyrri ræðu minni, í starfi ráðuneyta að svara fyrirspurnum þingmanna. Nú er því borið við og boð er látið út ganga að þau ætli sér að taka upp einhvers konar tímaskráningu vegna þessa sjálfsagða þáttar í starfsemi þeirra. Ég ætla að leyfa mér að segja, herra forseti, mín vegna mættu ráðuneytin taka upp víðtæka skráningu á verkefnum sínum og viðfangsefnum. Þetta er gert (Forseti hringir.) með góðum árangri á ýmsum sviðum í íslensku þjóðlífi, (Forseti hringir.) þar á meðal á sviði ráðgjafar og endurskoðunar.