148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

hnjask á atkvæðakössum.

313. mál
[17:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég kannast ekki við fyrirspurn hv. þingmanns um fjölda atkvæðakassa, en vissulega hlýtur að vera hægt að grafast fyrir um þá hjá yfirkjörstjórn og eftir atvikum landskjörstjórn.

Hv. þingmaður vísar kannski í fyrra skriflega svarið á þingskjal 348. Það er þá kjörstjórna að svara fyrir hvort þær haldi ekki skrá yfir hversu margir kjörkassar séu í notkun. Ég mundi ætla það fyrir fram að haldið væri utan um fjölda kjörkassa í umferð í hverju kjördæmi fyrir sig, eða a.m.k. á hverjum kjörstað fyrir sig. Það ætti ekki að vera flókið að særa fram þær upplýsingar.

Hv. þingmaður hefur lýst upplýsingum sem hann hefur, væntanlega frá umboðsmanni síns flokks á sínum tíma, um eitthvert tiltekið hnjask. Það er ekki í samræmi við þær upplýsingar sem ég hef fengið frá starfsmönnum sem komið hafa að málum. Ég hef ekki nánari upplýsingar en það en ég mun svo sannarlega leita eftir nánari skýringum á því. Ef það er rétt að kassar hafi orðið fyrir þvílíku hnjaski sem hv. þingmaður lýsir hér þá hlýtur það að hafa verið bókað sérstaklega.