148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á því öryggismati FÍB og EuroRAP á 4.200 km af íslenska vegakerfinu sem var opnað í morgun. Það öryggismat er nú opið öllum og hægt er að skoða þá stjörnugjöf sem EuroRAP gefur íslenska vegakerfinu. Er óhætt að segja að það komi ekki vel út. Þetta er allt gert til þess að auka öryggi vegfarenda sem ég tel vera eitt okkar allra brýnasta velferðarmál, að bæta þar úr. Samkvæmt öryggismati EuroRAP er mörgu ábótavant í íslenska vegakerfinu en alls er hægt að sjá stjörnugjöf 4.200 km vegarkafla sem kortlagðir voru á árunum 2012–2017.

Það er líka hægt að sjá í þessu kerfi tillögur að framkvæmdum, hvað hægt er að gera til að bæta öryggið. Þarna eru bæði smáar sem stórar framkvæmdir lagðar til. Hægt að sjá arðsemina í því, hvað kostar að fara í framkvæmdina og hverju hún skilar, svo ekki sé minnst á allan þann harmleik sem aldrei er hægt að meta og varla hægt að fjalla um en varðar líka kostnað sem má koma í veg fyrir.

Ég held að við ættum að nýta okkur þessar tölur til að forgangsraða fjármunum, til þess að auka umferðaröryggi. Það kemur í ljós að ástandið er slæmt úti um allt land. Við þurfum ekkert að vera hrædd um að það minnki fjármagn í vegagerð í okkar heimahögum þótt við förum eftir þessu kerfi því að þetta er um allt land.

Setjum umferðaröryggið í forgrunn. Stórbætum vegakerfið og aukum með því hagvöxtinn og drögum úr þessum ömurlegu slysum sem kosta okkur svo mikið, bæði félagslega og efnahagslega.