148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar Píratar voru í þriggja manna þingflokki á kjörtímabilinu 2013–2016 tókst okkur ekki að manna nefndir sem gerði það að verkum vitaskuld, vegna þess að við reynum að vera heiðarlegur flokkur, að við greiddum ekki alltaf atkvæði, oft og tíðum vegna þess að við höfðum ekki burði, við höfðum hreinlega ekki mannafla til að komast yfir þau mál sem voru þá til umræðu.

Þegar verst lét var þetta samkvæmt vefsíðunni thingmenn.is 39,1% afstaða. Það sem er áhugavert er að maður heyrir gagnrýni frá hæstv. dómsmálaráðherra þegar hún varpar pillum hér í garð Pírata um það að hafa afstöðuleysi þegar Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur á 141. þingi, þegar hann var með 16 þingmenn og vel nóg til að manna allar nefndir, var með afstöðu í 33% tilfella, sem er þó nokkru miklu lægra en hjá Pírötum þegar það var upp á sitt versta.

Það er í sjálfu sér ekki það sem mér finnst áhugavert vegna þess að þetta er allt saman tölfræði sem gerir ekki ráð fyrir raunveruleikanum á Alþingi. Það sem mér finnst hins vegar sérlega kjánalegt er að heyra afstöðuleysi hæstv. dómsmálaráðherra í vímuefnamálum eins og við heyrðum í gær í óundirbúnum fyrirspurnum í svari við fyrirspurn minni um það hvort smávægileg vímuefnabrot ættu heima á sakaskrá eða ekki. Mér finnst skrýtið að heyra að hæstv. dómsmálaráðherra eigi að koma úr ýmist frjálshyggju- eða frjálslyndisarmi Sjálfstæðisflokksins, en geti ekki tekið afstöðu gegn því að við refsum vímuefnaneytendum, hvort sem það er með því að setja þá á sakaskrá eða öðru.

Þannig kalla ég á Sjálfstæðismenn sem tala hér mikið um frelsið, yfirleitt um frelsi til verslunar, gott og blessað, minna yfirleitt um frelsi einstaklingsins. Hér erum við að tala um að hætta að ganga á frelsi fólks sem gerir eitthvað sem almennt tilheyrir einkalífi þess.

Ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn sýni afstöðu sína gegn ófrelsi, með frelsi, og með því að fara eftir tillögum sem koma fram í skýrslu heilbrigðisráðherra í sambandi við efni þeirra. Taktu afstöðu, Sjálfstæðisflokkur.