148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:15]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka heils hugar undir orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar. Ég þekki dæmi þess að foreldrar sem, eins og hv. þingmaður nefnir dæmi um, eiga barn saman án þess að hafa nokkurn tímann verið í sambandi og eru bara glöð með það. Lögheimilisforeldri fær sjálfkrafa aðgang að öllum upplýsingum í skóla, í Mentor og öðru slíku, en ég þekki dæmi þess að hitt foreldrið lenti í verulegum vandræðum með að fá aðgang að þeim upplýsingum. Við þurfum þá annaðhvort að breyta því að lögheimilið sé látið stýra svona miklu eða að hægt sé að skrá lögheimili á báðum stöðum. Það þyrfti þá að vera nóg að blóðforeldri, eða eitthvað slíkt, sem er kannski of flókið mál að fara út í hér, hafi ákveðinn rétt.

Í grunninn er þetta þannig að við erum hálfpartinn að brjóta á réttindum barnsins eins og hv. þingmaður sagði svo fallega í lokin — réttindum sem eru númer eitt, tvö og þrjú í þessu máli — og réttindum foreldra til samvista við og upplýsinga um barn sem þau eru sannarlega með og deila jafnvel um forræði yfir.

Mig langaði í síðara andsvari að spyrja hv. þingmann: Ber löggjafanum ekki hreinlega skylda til þess að bregðast við þessu?