148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[16:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Hér er vitaskuld um afar þýðingarmikið og mikilvægt mál að ræða, grundvallaratriði sem svo má kalla. Ég ætla hér að einbeita mér sérstaklega að einu atriði sem varðar 6. gr. frumvarpsins um lögheimili barna, þá sérstaklega þegar þannig stendur á að foreldrar barnsins hafi skilið eða slitið sambúð, en þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að barnið hafi skráð lögheimili hjá öðru foreldri sínu.

Þetta atriði vekur upp þá spurningu hvort börn geti átt tvöfalt lögheimili, sem er reyndar gert hér í greinargerð þar sem segir, með leyfi forseta.

„Sérstaklega var skoðað hvort börn sem búa til jafns hjá foreldrum sem hafa sameiginlega forsjá og eru ekki í sambúð eða hjúskap geti átt tvöfalt lögheimili.“

Þá er greint frá því að þetta hafi verið metið við undirbúning þessa frumvarps og að við þetta mat hafi verið litið til tiltekinna skýrslna, það eru tvær skýrslur innanríkisráðherra um eins og það heitir jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Önnur skýrslan var lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016 og síðan er skýrsla frá sama hópi frá því í mars í fyrra, þ.e. 2017.

Þá segir í greinargerðinni og ég ætla að leyfa mér að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Talið er að erfitt geti verið fyrir sveitarfélög að uppfylla skyldur sínar í þessu samhengi og var því ekki talið rétt að heimila skráningu tvöfalds lögheimilis.“

Þetta kallar á nánari athugun vil ég leyfa mér að segja og vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd geri gangskör að því að kanna það nánar hvort hægt sé að yfirvinna þessa erfiðleika sem þarna eru raktir, sigrast á þeim vandamálum sem þarna eru greind, að það geti verið erfitt fyrir sveitarfélög að uppfylla skyldur sínar í þessu sambandi.

Þannig stendur á að það foreldri sem er ekki með sama lögheimili og barnið nýtur ekki að öllu leyti sömu réttinda í öllu tilliti og lögheimilisforeldrið, eins og það heitir á tungutaki þessara fræða, t.d. þegar kemur að barnabótum eftir því sem ég er upplýstur um.

Nú þykist ég fara með rétt mál, frú forseti, þegar ég leyfi mér að segja að ekki er vitað betur en að hæstv. dómsmálaráðherra hafi lýst áformum um að fara af stað með undirbúningsstarf í þessu efni varðandi möguleikann á tvöföldu lögheimili.

Hér er auðvitað um afar mikilvægt mál að ræða og í samræmi við jafnréttiskröfu samtímans, í þessu tilfelli jafnrétti á milli foreldra, að jafna þeirra stöðu. Hefðu þessi tormerki, sem þarna eru rakin og ég vísaði til áðan og eru rakin í greinargerð með frumvarpinu, ekki staðið í vegi þá hefði í þessu frumvarpi mátt flýta fyrir því, frú forseti, að jafna stöðu foreldra í þessu tilliti.

Ég vil þess vegna ítreka það og árétta að ég tel að hér sé um mikilvægt jafnréttismál að ræða fyrir þá foreldra sem þannig stendur á að búa ekki saman, eru sem sagt hvorki í hjúskap né í skráðri sambúð, að þeirra staða verði jöfnuð að þessu leyti. Ég treysti hv. allsherjar- og menntamálanefnd til þess að ganga úr skugga um hvort ekki séu möguleikar á því að sigrast á þessum vandamálum sem þarna eru tilgreind, án þess að það sé út af fyrir sig rakið í einstökum atriðum hvað það er sem skapi þessi vandamál hjá sveitarfélögunum, en ég árétta það að hér er um afar mikilvægt mál að ræða þar sem þetta frumvarp er og þetta atriði hvað varðar lögheimili barna kallar svo sannarlega á góða og vandaða athugun.