148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

389. mál
[16:31]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kannski var ekki alveg nógu skýrt áðan hvað ég var að meina með spurningunni af því að ég er alveg hjartanlega sammála nálguninni og skil hana vel. Ég er sammála markmiðum hennar og held að þetta muni bara skila miklu betra verki þegar upp er staðið.

Í dag er til stjórn fjarskiptasjóðs sem má segja að missi þarna verkefni af því að verkefnisstjórnin er tekin af henni. Væri ekki miklu einfaldara að þessi fjárhagshluti væri hjá starfsmönnum sjóðsins eða ráðuneytinu, að stjórn fjarskiptasjóðs yrði lögð niður og við hefðum bara fjarskiptaráð sem væri með verkefnisstjórnina? Ég velti því fyrir mér af því að annars erum við komin með tvær stjórnir yfir sama apparatið. Er það ekki óþarfaflækja?

Af því að ég hef tíma langar mig líka að koma aðeins inn á annað, mér finnst hugmyndin um byggðaráð alveg frábær. Mig hefur lengi langað að taka þá umræðu hérna, í ljósi þess að við horfum á öll frumvörp og allt sem við gerum með kynjagleraugunum, og spyr hvort ekki væri ástæða til að gera það sama með byggðamálin og horfa á allt með byggðagleraugunum. Gæti byggðaráðið t.d. fengið á einhvern hátt það hlutverk að fjalla um alla áætlunargerð ríkisins út frá byggðamálum? Þetta er bara hugmynd sem ég fæ hér í ræðustól.