148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir miður að hv. þingmaður líti svo á. Ég sé hvergi í einni einustu umsögn að þessi stefna fái falleinkunn. Það eru orð hv. þingmanns. Fyrst og fremst hafa hér verið mjög vandaðar umsagnir og umfjöllun nefndarinnar yfirgripsmikil og mikið verið rætt um efnahagshorfur. Það er vissulega óvissa í efnahagshorfum en það breytir því ekki að stefnan uppfyllir öll grunngildi sem fram koma í lögum um opinber fjármál. Hér er verið að skila jákvæðri afkomu á sama tíma og við erum að greiða niður skuldir, á sama tíma og við mætum uppsafnaðri þörf innviða í samgöngum, förum í uppbyggingu í menntamálum og setjum meira inn í heilbrigðiskerfið. Við erum að fara að bæta úr þar. Ég get ekki séð þetta með þessum svartsýnu augum eins og hv. þingmaður.