148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Svo við höldum okkur við þessa umsögn þá kemur líka fram þar að sveiflan í raungenginu hefur á vissan hátt hjálpað til við aðlögun hagkerfisins að stórum búhnykkjum. En auðvitað hentaði það hv. þingmanni ekki að fara yfir þann þátt umsagnarinnar.

Ég vil í seinna andsvari koma inn á umsögn Samtaka atvinnulífsins, af því að hv. þingmanni varð tíðrætt um að hér gengi ekki að vera á móti skattalækkunum. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins koma fram fimm atriði sem mikilvægt er að hafa hugfast þegar stefna opinberra fjármála er mörkuð, m.a. að á Íslandi eru innheimtir einhverjir hæstu skattar meðal þróaðra ríkja og við eigum að horfa til þess að festa Ísland ekki í sessi sem háskattaríki. Ég vil spyrja hv. þingmann sem hægri krata hvort hann vilji ekki lækka tryggingagjald í þessu rekstrarumhverfi fyrirtækja.