148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu og fína ræðu, bæði að formi og efni. Þegar ég tala um formið þá ræddi hv. þingmaður hér þau grunngildi sem ber að fylgja í stefnunni. Ég vil aðeins dvelja við það. Sannarlega komu ábendingar frá fjármálaráði en þess ber að geta að fjármálaráð staðfestir að stefnan uppfylli öll skilyrði 7. gr. um afkomureglu, skuldareglu og skuldalækkunarreglu. Fjármálaráð benti jafnframt á að æskilegt væri að áætlunargerðinni fylgdi greining. Það var að stærstum hluta til umræðuefni hv. þingmanns. Meiri hlutinn tók undir þá ábendingu. Þetta var gagnrýnt hér við síðustu stefnu líka.

Stefnumótun er í eðli sínu hluti af ferli. Við fáum bráðlega til umfjöllunar ríkisfjármálaáætlun og í útfærslu á stefnu í fjármálaáætlun ber jafnframt að fylgja þessum grunngildum 6. gr. og taka tillit til þeirra skilyrða sem stefnunni eru sett í 7. gr. Ég velti fyrir mér hvaða skilning hv. þingmaður leggur í þau orð fjármálaráðs að „æskilegt“ væri að áætlunargerðinni fylgdi greining til (Forseti hringir.) staðfestingar; við tökum undir það í meiri hlutanum og höfum fyrir því orð sérfræðinga að unnið sé að betrumbótum.