148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég verð að segja það að í fyrsta lagi hefði ég ekki samið svona stefnu. Ef við hefðum fengið að halda áfram eftir árið 2013 hefðum við nýtt afganginn, þegar við vorum að komast upp úr efnahagshruninu og ná endum saman, og haldið einhverjum af tekjuöflunaraðferðunum okkar inni til þess að efla innviðina. Ég lít á árin 2013–2016/2017 sem ár hinna glötuðu tækifæra. Það voru ár hinna glötuðu tækifæra. Þá áttum við að byggja upp innviðina. Það er fyrir það sem við erum í þeirri vondu stöðu að við erum á toppi hagsveiflunnar og verðum að fara í innviðauppbyggingu. Í þessari stöðu ætti ríkið í raun að halda að sér höndum, en við getum það ekki af því að innviðirnir eru að brotna undan okkur. Við verðum að bæta í.

Hvað eigum við þá að gera? Þá eigum við að afla tekna til þess að gera það en ekki ganga á afgangi til þess að gera það. Við munum fara niður einhvern tímann í sveiflunni og þá verðum við að hafa drjúgan afgang til þess að ganga á því annars erum við að gera það sem mér virðist þessi hæstv. ríkisstjórn vera að gera, að nota velferðarkerfið til þess að taka sveiflurnar. Það er galin efnahagsstjórn. Við eigum að vera búin að læra af þessu fyrir löngu, meira að segja fyrir hrun en alla vega eftir hrun.