148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég svo aldeilis hissa að hv. þingmaður hafi ekki verið mjög hrifinn af þeirri ríkisstjórn sem var hér 2009–2013 og leiddi okkur upp úr efnahagshruninu. Auðvitað glímdum við þar við erfið verkefni og ýmislegt gekk á. Varðandi spurningu hv. þingmanns þá hefði ég tekið athugasemdir fjármálaráðs alvarlega og ekki síst þetta með þessar nákvæmu mælingar upp á einn aukastaf, þó að ekki væri annað en að taka þetta í bilum. Síðan hefði ég fellt út málsgreinina sem er merkt með rómverskum þremur af því að enginn skilur hvað þetta er. Það sem er sett í stefnunni á að vera mælanlegt, það er ekki mælanlegt. Síðan hefði ég farið umsvifalaust í þá vinnu að breyta lögum um opinber fjármál og taka út fjármálareglurnar. Ef ríkisstjórn vill setja sér fjármálareglu þá er það fínt, en það þarf ekki að setja þær í lög.