148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:46]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir hennar ágætu ræðu. Ég held að hugsanlega séu ýmis rök fyrir því að hafa frestinn lengri og sum rökin eru betri en önnur. Mér þótti þingmaðurinn kannski ekki draga nægilega vel fram það sem ég tel vera betri rökin og gera of mikið úr þeim sem ég tel síðri. Ég skal aðeins fara í gegnum það.

Það eru alveg rök fyrir því að þegar breytingar eru gerðar á kosningalögum svo nálægt því að kosningar fari fram þá gætu einhverjir þingmenn freistast til að greiða atkvæði eftir því hvort þeir teldu að það væri þeirra flokkum hagstætt eða ekki. Það er auðvitað mjög óheppilegt og eru ákveðin rök. Ég held reyndar að þau rök séu ekki það veigamikil að þau muni ráða afstöðu minni í þessum málum, hún er óbreytt frá því ég var flutningsmaður sambærilegs máls hér áður.

Hin rökin sem hv. þingmaður gerði talsvert mikið úr eru fræðslu- og rannsóknarökin. Ég skil að okkur líði vel með það að við getum ekki hleypt neinum að kjörkassa nema mennta hann vel til þess. Reyndin er sú að flest okkar fengu sinn kosningarrétt án þess að hljóta sérstaka fræðslu um það hvað væri nauðsynlegt að gera. Það er svo bara spurning hvernig myndum við meta árangurinn. Segjum að eftir góða og ítarlega fræðslu myndu 50% kjósenda í Reykjavík t.d. kjósa Viðreisn, flokkinn minn. Væri það til marks um að fræðslan hefði tekist vel? Eða væri það til marks um að hún hefði tekist illa?

Niðurstaðan er á endanum sú að fólk hefur þennan rétt og nýtir hann. Kannski nota mörg okkar hann ekki með jafn faglegum hætti og við myndum vilja að þeir kjósendur sem nú fá hugsanlega kosningarrétt í fyrsta skipti geri.