148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:51]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef skoðun á þessu eins og svo mörgu öðru í lífinu. Fyrst vil ég nefna að almennt held ég að leiðin til að efla þátttöku ungs fólks eða annarra sé að hleypa stjórnmálaflokkunum að hlutunum. Ég held að þeir séu hagsmunaaðilarnir sem eru best til þess fallnir að draga fólk á kjörstað, ekki skólarnir með hlutlausri fræðslu. Það er oft þannig að í samkeppnisumhverfi eykst neyslan.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að tala stjórnmálin aðeins upp. Skilaboðin sem ungt fólk fær eru: Stjórnmál eru ljót, spillt, vond, og ógeðsleg, en mundu að nýta kosningarréttinn þinn. Þetta eru skilaboð sem passa ekkert voðalega vel saman að mínu mati.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún nefndi hér málefni innflytjenda. Mín skoðun í því er í raun eins og í öðru að ábyrgðin sé fyrst og fremst flokkanna. Það væri betra fyrir flokkana að hafa skýrari yfirsýn yfir hverjir hafa kosningarrétt, og einfaldasta leiðin er einfaldlega að veita miklu stærri hópi þann kosningarétt, veita t.d. öllum íbúum Reykjavíkur kosningarrétt, óháð því hvort þeir hafi verið hér stuttan eða langan tíma. Það kann að skjóta skökku við, ef við erum búin að samþykkja þetta frumvarp, að ósjálfráða íslenskur menntaskólanemi hafi eitthvað að segja um það hvernig nærumhverfi hans er en fullorðinn einstaklingur, útlendingur sem ekki er með ríkisborgararétt, sem borgar sína skatta og hefur búið hér í mörg ár, hefur ekki sambærilegan rétt. Mig langar að forvitnast um það hvort þingmaðurinn hafi velt þessu fyrir sér og hvort við gætum stutt þá leið sem myndi alla vega stuðla að auknum kosningarrétti erlendra ríkisborgara.