148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar vangaveltur, þær eru um margt áhugaverðar. Varðandi fræðsluhlutverkið erum við kannski komin að kjarna málsins. Lýðræðisleg þjálfun, það að taka þátt í félagsstarfi, er eitthvað sem skólarnir ættu að sinna. Við værum síðan að búa til annan vettvang fyrir samtalið milli stjórnmálaflokkanna og ungmenna, því ég er algjörlega sannfærð um að þú lærir um stjórnmál í gegnum samskipti við stjórnmálamenn; ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni. Það er allt of mikil hræðsla við að veita börnum og ungmennum tækifæri til að rökræða stjórnmál. Ég þekki mörg dæmi um að þau sem það hafa gert hafa síðan orðið mjög virk í ýmiss konar félagsstarfi.

Varðandi þátttöku innflytjenda þá fá innflytjendur, ef ég man rétt, kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum eftir að hafa átt fimm ár lögheimili í landinu. Ég þekki dæmi þess að framboð hafa þýtt fullt af efni yfir á pólsku eða önnur tungumál en komist svo að því að allir þeir innflytjendur sem voru á kjörskrá voru löngu farnir að tala mjög fína íslensku.

Ég hef hins vegar ekki velt þessu svo mikið fyrir mér varðandi það hverjir og hvenær innflytjendur ættu að fá kosningarétt, en ég held að fullt tilefni sé til þess í því samfélagi sem við búum í að endurskoða það. Við höfum dæmi um lítil sveitarfélög á landsbyggðinni þar sem 20–30% íbúanna eru innflytjendur. Það er afar sérstakt ef svo stór hluti hefur engan rétt til þátttöku í sveitarstjórnarkosningum.