148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að biðja hv. þingmann að sýna mér smáskilning. Ég náði ekki alveg fyrirspurninni, það kann að vera að ég hafi misskilið hana, en hann hjálpar mér þá á eftir.

Það er alveg rétt að það er hluti af þroska okkar að fá t.d. lengri útivistartíma, hann er mismunandi eftir aldri og það er ósköp eðlilegt, það er hluti af þroskaferlinu. En við erum að tala um kosningarréttinn og ég segi: Ef við erum sammála um að menn eigi að öðlast kosningarrétt við 16 ára aldur hljóta menn að vera tilbúnir að segja: Það er fullkomlega óeðlilegt að einstaklingur sem getur tekið þátt í kosningum, valið inn á Alþingi eða valið í sveitarstjórnir, sé ekki sjálfráða. Í mínum huga er það mótsögn, ein forsenda þess að maður geti nýtt sér kosningarréttinn er að maður sé sjálfráða, engum háður, ráði sér sjálfur og það sé yfir allan vafa hafið að viðkomandi sé sjálfstæður einstaklingur sem gengur inn í kjörklefann og greiðir sitt atkvæði, tekur ákvörðunina sjálfur. Sjálfráða. Sjálfstæður.