148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir ræðuna um þetta nefndarálit. Ég tók til máls í andsvörum þegar hv. þm. Andrés Ingi Jónsson flutti þetta frumvarp fyrir jólin. Þá lýsti ég yfir áhuga mínum á að fylgjast með málinu, hvernig því myndi vinda fram í þinginu og í nefnd. Ég rifjaði upp upplifun mína af pólitík þegar ég var unglingur. Svo hef ég verið að ræða þetta við kennara og félagsfræðinga og þá sem eru meira með unglingum og spyrja hver sé munurinn á unglingi sem er 16 ára og þeim sem er 18 ára. Flestir segja: Það er bara ekki svo mikill munur á 16 ára og 18 ára unglingum. Þau eru orðin ansi sjálfstæð í hugsun.

Ég verð að taka undir það með hv. þm. Óla Birni Kárasyni og þeim sem hafa mælt fyrir nefndarálitum hér, hv. þingmönnum Líneik Önnu Sævarsdóttur og Þorsteini Sæmundssyni, að þetta er ansi stuttur tími. Einhver sagði að við yrðum að átta okkur á því að þetta væri eitthvað sem kæmi til með að verða, þetta væri eins og þegar verið var að ræða um að innleiða símann á sínum tíma, það kæmi að því.

Mig langar aðeins að spyrja þingmanninn út í þetta með sjálfræðisaldurinn og samræminguna á því, eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á áðan með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna: Er þetta eitthvað sem er alþjóðlega samþykkt, með sjálfræðið, eða getum við hér á Íslandi breytt því?