148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að biðja forseta að beita sér fyrir hönd þingmanna. Í Morgunblaðinu í dag er enn og aftur verið að skrifa um fyrirspurnir þingmanna. Við höfum orðið vör við það undanfarið að stjórnsýslan hefur kvartað svolítið og kveinað yfir að þurfa að sinna fyrirspurnum frá þingmönnum. Í Morgunblaðinu í dag er vitnað í einhvern ráðherra sem ég veit ekki hvort er núverandi eða fyrrverandi sem taldi að fyrirspurnir þingmanna væru oft og tíðum einhvers konar leikrit.

Þessar fyrirspurnir eru mikilvægur liður fyrir þingmenn í að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og veita því aðhald. Það er mjög mikilvægt að þingið, sér í lagi forseti, sendi skýr skilaboð núna, í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í fjölmiðlum, frá framkvæmdarvaldinu um að Alþingi ætli að bakka sína þingmenn upp í að beita þeim verkfærum sem þeir hafa til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.