148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil láta þess getið að ég tek því ekki vel þegar leitast er við að gera tortryggilegan þann eðlilega þátt í starfi þingmanna sem er að afla upplýsinga, vekja athygli á málum og krefjast svara. Ég leyfi mér að benda á að þjóðin ákvað að senda átta þingflokka inn á löggjafarsamkomuna að þessu sinni. Mál hafa skipast þannig að fimm flokkar eru í stjórnarandstöðu og þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Þar eru uppi margvísleg sjónarmið, áhugamál og stefnumál sem leiða til þess að það þarf að bera upp spurningar, vekja athygli á málum, í kannski meira mæli en þegar málum var öðruvísi háttað.

Ég minni sömuleiðis á að forseti hlaut yfirburðaglæsilega kosningu sem forseti og ég ítreka hamingju- og heillaóskir mínar til hans í framhaldi af því. Í því felst mikill stuðningur við hann en um leið krafa um að hann standi (Forseti hringir.) þétt að baki alþingismönnum, hvar í flokki sem þeir standa. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)