148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Á nefndarfundi áðan komu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem vöruðu við því að þetta mál yrði afgreitt þannig að þessi réttur kæmi til núna eftir tæplega 60 daga, þar af eru 15 dagar frídagar og 45 dagar gefast til kynninga. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, ég hvet fólk til þess að kynna sér það hverjir það eru sem vilja vanda sig við þetta verk, hverjir það eru sem vilja flaustra við það, hverjir það eru sem vilja sýna þeim sem eiga að kjósa þá virðingu að þeir fái tíma til þess að fá nauðsynlega fræðslu, til þess að sýna menntamálayfirvöldum nauðsynlega virðingu og tíma til þess að þau geti gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hægt sé að gera þetta eins og hjá fólki.

Ég treysti því að menn skilji að það er betra að vandað sé til verka. Það hefur legið yfir þessu húsi að hér sé stundum unnið flausturslega og við höfum sopið seyðið af því á margan hátt. Hér er gott tækifæri til þess að sýna hið gagnstæða. (Forseti hringir.) Við skulum gera það. Við skulum fresta málinu til 2020 eins og breytingartillagan gerir ráð fyrir.