148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:12]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna orðum hæstv. forsætisráðherra og vil gera orð hennar að mínum. Til viðbótar vil ég segja að hér er ekki um að ræða neina grundvallarbreytingu á kosningalögum eða kosningakerfi. Friðarskylda sem menn hafa talað um tekur bara alls ekki til þessara þátta. Það er ekki verið að breyta þeim með neinum hætti.

Í öðru lagi vil ég benda á að í flestöllum stjórnmálaflokkum eru menn með aldurstakmark 15 ár, 16 ár. Þar treysta menn fólki til þess að gegna æðstu embættum þessara flokka, raða fólki á lista, ákveða stefnu, en svo þegar kemur að því að á að fara að kjósa um þessa kandídata, um þessa stefnu leggjast menn algjörlega þvert gegn því að ungmenni megi velja fólk og stefnu. Ég skil bara ekki þetta ósamræmi og hvernig menn fara að því að rökstyðja það miðað við þann málflutning sem menn hafa uppi í þessu máli.