148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er á margan hátt mjög áhugavert mál, þ.e. hvenær viljum við treysta unga fólkinu í landinu til að taka ákvarðanir um sig og nærumhverfi sitt. En ég verð að segja að í þessu tilviki finnst mér vera hrópandi ósamræmi á milli ólíkra réttinda. Til dæmis að við veitum viðkomandi ekki rétt til að bjóða sig fram en viljum veita honum rétt í þessu máli til að kjósa, en þó ekki í alþingiskosningum. Við ætlum að verja viðkomandi fyrir refsingu með sérstökum refsilækkunarákvæðum í löggjöfinni ef viðkomandi brýtur af sér, foreldrar viðkomandi fá barnabætur en hann er kominn með kosningarrétt. Við ætlum ekki að treysta viðkomandi til að kaupa sígarettur úti í búð, ekki til að fá ökuskírteini, ekki til að kaupa áfengi, ekki yfir höfuð til að gera nokkurn einasta gildan, skuldbindandi löggjörning. Það er sú staða sem ég myndi svo gjarnan vilja ræða í þessu samhengi, hvort ástæða sé til að taka öll hin ólíku réttindi sem varða börn samkvæmt lögum (Forseti hringir.) til skoðunar um leið og við veltum fyrir okkur hvernig við getum fengið þau til frekari þátttöku um nærumhverfi þeirra.