148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

Viðlagatrygging Íslands.

388. mál
[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi: Í fyrsta lagi er lagt til að málsmeðferð bótamála verði einfölduð og stjórnsýslustigum fækkað þannig að felld verði brott heimild til að kæra ákvörðun til stjórnar Viðlagatryggingar Íslands áður en hún er kærð til úrskurðarnefndar. Við þessa breytingu verður málsmeðferðin einfaldari, auk þess sem hún er í meira samræmi við almenn stjórnsýslulög.

Í öðru lagi er lagt til að ákvæði um sérstaka skoðunarmenn ársreikninga verði fellt brott. Ríkisendurskoðun endurskoðar ársreikninga stofnunarinnar og því er talið óþarft að sérstakir skoðunarmenn endurskoði einnig reikninga hennar.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði að atburðir sem verða af mannavöldum af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi teljist ekki náttúruhamfarir í skilningi laganna. Með þessu er lagt til að lögfest verði þau viðmið sem stofnunin hefur viðhaft í framkvæmd.

Í fjórða lagi er lagt til að eigin áhætta tjónþola verði lækkuð úr 5% í 2% af hverju tjóni en að lágmarksfjárhæðir eigin áhættu hækki. Þannig er lagt til að áhætta vegna lausafjár verði 200.000 kr. í stað 20.000 kr., áhætta vegna húseigna 400.000 kr. í stað 85.000 og áhætta vegna mannvirkja 1 milljón í stað 850.000 kr. Núverandi eigin áhætta er lægri en í flestum eignatryggingum og hætta er á því að fjármunir stofnunarinnar verði notaðir til að bæta mörgum aðilum óverulegt tjón ef þannig stendur á. Með frumvarpinu er lögð áhersla á að þeir sem verða fyrir verulegu tjóni muni fá hærri bætur en áður, en að þeir sem verða fyrir óverulegu tjóni muni bera sína áhættu sjálfir. Verði frumvarpið að lögum mun stofnunin hafa meira svigrúm til að sinna afgreiðslu stærri tjóna sem aftur minnkar líkurnar á að stofnunin þurfi að taka lán, á ábyrgð ríkissjóðs, til að mæta skuldbindingum sínum.

Í fimmta lagi er lagt til að tjónþola verði gert skylt að ráðstafa vátryggingarbótum til endurbóta á hinni skemmdu eign eða munum. Auk þess verður stofnuninni skylt að greiða vátryggingarbætur í samræmi við framvindu endurbóta ef fjárhæð vátryggingarbóta er umfram 15% af vátryggingarfjárhæð eða tjón hefur orðið sem varðar öryggi og hollustuhætti. Loks er lagt til að í undantekningartilvikum geti stofnunin hlutast til um viðgerðir á húseignum í samráði við tjónþola.

Í sjötta lagi er lagt að stofnunin fá nýtt heiti. Lagt er til að heitið Viðlagatrygging Íslands verði aflagt og að hún muni þess í stað kallast Náttúruhamfaratrygging Íslands. Markmiðið er að endurspegla betur hlutverk stofnunarinnar sem er að tryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara. Tryggingin sjálf myndi þá framvegis heita náttúruhamfaratrygging.

Ég vænti þess að það verði einhverjar umræður í nefndinni um þetta atriði og þar sem ég er frekar íhaldssamur sjálfur hafði ég gefið þessari tillögu í frumvarpinu sem mér berst þaðan og frá stjórn og stjórnendum alveg sérstakan gaum. Ég er tregur til að leggjast gegn því mati þeirra sem með mál fara þar, að nafnið hafi valdið einhverjum misskilningi og að nafnbreytingin kunni betur að endurspegla hlutverk stofnunarinnar, en ég viðurkenni að ég var ekki alveg sannfærður við fyrstu athugun. Ég legg þetta þó til við þingið og hvet nefndina til að hugsa það áfram sérstaklega.

Virðulegi forseti. Meginmarkmið frumvarpsins er að bæta skilvirkni í starfsemi Viðlagatryggingar Íslands og afmarka vátryggingarverndina á þann hátt að hún sé líklegri til að styrkja grunnstoðir samfélagsins komi til náttúruhamfara sem valda miklu eignatjóni. Verði frumvarpið að lögum ætti það að styrkja starfsemi Viðlagatryggingar Íslands. Lagt er til að starfsemin verði um margt einfaldari en nú er og að ráðstöfun tjónabóta verði gerð skýrari án þess að það bitni með neikvæðum hætti á tjónþolum. Þá ætti málsmeðferð í tjónamálum að taka styttri tíma og hafa í för með sér minni kostnað sem er öllum til hagsbóta.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.