148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[16:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að kannski ættum við að endurhugsa nálgun okkar. Ég held að við höfum verið allt of íhaldssöm, sérstaklega í þessum málum. Eins og ráðherra kom ágætlega inn á er búið að taka ein 15 ár að koma þessu máli fyrir þingið. Eins ánægjulegt og það er þurfum við vissulega að ganga talsvert lengra. Hér erum við eingöngu að verja minnihlutaréttindin með almennum hætti á grundvelli kynþáttar og uppruna þjóðernis, en það er fjöldinn allur sem undan er skilinn sem tekið er á í mismunafrumvarpinu gagnvart vinnumarkaði.

Það er gott að heyra í svörum ráðherra í fyrri andsvörum að ráðuneytið verði nefndinni innan handar í ráðleggingum í þessum efnum. Ég myndi hvetja ráðherra eindregið til þess að láta þegar hefja vinnu innan ráðuneytisins um minnisblað til nefndarinnar um hvers beri þá að gæta vilji nefndin útvíkka málið því að ég held að full ástæða sé fyrir nefndina að skoða það. Ég held að það sé allt í lagi að leyfa minnihlutahópum (Forseti hringir.) að njóta vafans og láta af þeirri íhaldssemi sem einkennt hefur þetta mál hingað til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)